Nafnanefnd hefur óskað eftir umsögn Örnefnanefndar um 17 hugmyndir að nöfnum. Heitin nota tiltekna forliði og eftirliði.
• Óskað er umsagnar um forliðina Austur-, Eystri-, Eystra-, Dreka-, og Múla-.
• Óskað er umsagnar um eftirliðina -byggð, -byggðir, -þing, og -þinghá.
• Þá er óskað umsagnar um heitið Sveitarfélagið Austri.

Örnefnanefnd mun fjalla um tillögurnar á fundi sínum í dag, mánudaginn 17. febrúar og hefur þrjár vikur til að skila umsögnum. Þegar umsagnir Örnefnanefndar liggja fyrir verður tekin ákvörðun um hvaða heiti verða lögð fyrir íbúa í atkvæðagreiðslu þann 18. apríl næstkomandi. Hægt er að taka þátt í umræðu um heiti á Facebooksíðu verkefnisins.

Merki sveitarfélaganna fjögurra

Um forliðina Austur-, Eystri- og Eystra-
Forliðurinn Austur- vísar til hinnar landfræðilegu staðsetningar sveitarfélagsins og þess sem sameinar íbúa hins nýja sveitarfélags meira en nokkuð annað, að vera íbúar á Austurlandi.
Sami rökstuðningur á einnig við um lýsingarorðið eystri, en það getur vísað til þess að hið nýja sveitarfélag stendur austar á landinu en önnur, utan nágrannasveitarfélagsins Fjarðabyggðar sem teygir sig lítið eitt lengra í austur. Orðið eystra getur hvort sem er verið lýsingarorðið í hvorugkynsmynd, en einnig atviksorð sem algengt er að sé notað til að lýsa staðsetningu, „ég er staddur eystra“. Notkun þessara orðmynda beggja er vel þekkt innan hins nýja sveitarfélags, einkum þegar rætt er um Borgarfjörð, sem ýmist er þá nefndur Borgarfjörður eystri eða Borgarfjörður eystra.
Fordæmi er fyrir því að kenna sveitarfélög við höfuðáttirnar, sbr. Vesturbyggð, Austur-Hérað sem síðar hefur sameinast Fljótsdalshéraði og Austurbyggð sem hefur síðar sameinast í Fjarðabyggð.
Heitið Austurbyggð var notað um sveitarfélag á Austfjörðum. Það varð til 1. október 2003 við sameiningu Búðahrepps og Stöðvarhrepps, en þann 9. júní 2006 sameinaðist það Fáskrúðsfjarðarhreppi, Mjóafjarðarhreppi og Fjarðabyggð undir merkjum Fjarðabyggðar. Heitið er því ekki lengur í notkun.

Um forliðinn Dreka-
Forliðurinn Dreka- vísar til landvættar Austurlands í skjaldamerki Íslands.

Um forliðinn Múla-
Forliðurinn Múla- vísar til þess kennileitis sem svæðið hefur lengst af verið kennt við, fjallið Þingmúla í Skriðdal. Fjallið er auk þess hvað næst því að geta talist miðsvæðis í hinu nýja sveitarfélagi. Undir því var einnig hinn forni þingstaður og því söguleg skírskotun til staðbundinna stjórnvalda.

Um eftirliðina -byggð og byggðir
Eftirliðurinn -byggð hefur verið notaður á heiti sveitarfélaga þar sem svo háttar til að í senn er allnokkurt dreifbýli sem og eitt eða fleiri stór þéttbýlissvæði í samræmi við meginsjónarmið Örnefnanefndar. Fjöldi fordæma er fyrir notkun eftirliðarins í sveitarfélagaheitum. Sem dæmi má nefna Borgarbyggð, Dalabyggð, Vesturbyggð, Strandabyggð, Skagabyggð, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Langanesbyggð, Fjarðabyggð og Bláskógabyggð.
Óskað er umsagnar um fleirtölumynd eftirliðarins þar sem innan sveitarfélagsins eru fleiri en ein byggð.

Um eftirliðinn -þing
Eftirliðurinn -þing hefur ríka skírskotun til stjórnsýslu á Íslandi frá landnámi og eru fordæmi fyrir notkun eftirliðarins -þing í sveitarfélögunum Norðurþing, Húnaþing vestra, Rangárþing eystra og Rangárþing ytra.

Um eftirliðinn-þinghá
Orðið þinghá er sennilega þekktara innan marka þessa nýja sveitarfélags en víðast annarsstaðar, en ennþá í dag er heimafólki tamt að tala um Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá. Eiða- og Hjaltastaðaþinghá eru á Fljótsdalshéraði en nágrannasveitir við bæði Borgarfjörð og Seyðisfjörð. Orðið þinghá þekkist einnig innan Djúpavogshrepps, en sveitin sunnan Búlandstinds, innan við Djúpavog nefndist áður Hálsþinghá. Orðið þinghá hefur þannig ríka sögulega skírskotun en er jafnframt nokkuð einstakt fyrir svæðið.
Hugtakið hefur sögulega verið notað um ákveðið landsvæði þar sem þeir menn bjuggu er áttu til hlutaðeigandi þings að sækja lögum samkvæmt. Hugtakið er þannig stjórnsýslulegt í eðli sínu og lýsandi fyrir eðli sveitarfélaga, sem eru jú svæði sem lúta sérstakri stjórn í umboði íbúanna.
Heiti sem nýta þá for- og eftirliði sem óskað er umsagnar um

 1. Austurbyggð
 2. Austurbyggðir
 3. Austurþing
 4. Austurþinghá
 5. Drekabyggð
 6. Drekabyggðir
 7. Drekaþing
 8. Drekaþinghá
 9. Eystraþing
 10. Eystribyggð
 11. Eystribyggðir
 12. Eystriþinghá
 13. Múlabyggð
 14. Múlabyggðir
 15. Múlaþing
 16. Múlaþinghá

Sveitarfélagið Austri
Heitið er tilvísun í dverginn Austra sem höfuðáttin er kennd við. Austri er einn fjögurra dverga í norrænni goðafræði sem standa hver á sínum enda jarðarinnar og halda uppi himninum.

Translate »
WordPress Video Lightbox