Eitt helsta áhersluatriði samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra eru samgöngumál. Þar hefur nefndin sett Fjarðarheiðargöng og Axarveg í forgang, ásamt fleiri samgönguverkefnum. Fulltrúar nefndarinnar hafa unnið ötullega að því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við samgönguráðherra og Alþingi, meðal annars með tveggja daga heimsókn í þingið í byrjun mars þar sem fundað var með öllum þingflokkum.

Samgönguráðherra kynnti skýrslu starfshóps um jarðgangakosti miðvikudaginn 14. ágúst á Egilsstöðum. Í skýrslunni er lagt til að í forgangi verði að grafa Fjarðarheiðargöng milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar og síðar tvenn göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og áfram til Norðfjarðar.

Fjarðarheiðargöng munu hafa mikil áhrif á samfélagið á Austurlandi og bæta lífsgæði íbúanna. Með þeim skapast m.a. tækifæri til að flytja heitt og kalt vatn frá Héraði inn á Seyðisfjörð. Þá munu göngin bæta afhendingaröryggi vöruflutninga um Seyðisfjörð sem mun hafa mikil áhrif á atvinnulíf á öllu norður- og austurlandi.

Mikilvægum áfanga er náð með þeirri niðurstöðu að Fjarðarheiðargöng eru komin í forgang, en verkefninu er þó hvergi nærri lokið. Samstarfsnefndin leggur áherslu á að hönnun Fjarðarheiðarganga fari fram á fyrsta tímabili Samgönguáætlunar, þ.e. á næstu tveimur árum, og framkvæmdum verði lokið um árið 2030. Framkvæmdatími við gerð gangnanna er áætlaður um 7 ár.

Hægt að finna skýrsluna á vef stjórnarráðsins og umfjöllun um verkefnið í öllum helstu fjölmiðlum.

Translate »
WordPress Video Lightbox