Elín Elísabet

Þann 2. apríl mættu tæplega 15% íbúa Seyðisfjarðarkaupstaðar á íbúafund í Herðubreið um verkefnið Sveitarfélagið Austurland. Á fundinum voru kynntar hugmyndir um uppbyggingu stjórnskipulags nýs sveitarfélags og þjónustu málaflokka. Eins og á Borgarfirði var almennur stuðningur var við þær hugmyndir sem kynntar voru, en á heimasíðu verkefnisins svausturland.is má finna umfjöllun og minnisblöð um þær hugmyndir.

Seyðfirðingar leggja mikla áherslu á að varðveita sérstöðu sína sem meðal annars felst í langri sögu staðarins, sterkri menningarhefð og öflugu atvinnulífi. Menningarstofnanir og hátíðir, eins og LungA, skipta þar miklu máli. Hins vegar sjá þau tækifæri í að sameina stjórnsýslu í eina öfluga heild með sterkum heimastjórnum. Það beri að varast að hafa stjórnsýsluna of miðlæga og skilgreina vel hlutverk og verkaskipti milli heimastjórna og sveitarstjórnarinnar. Fram kom sú hugmynd að hið virðulega og fallega hús Seyðisfjarðarskóli verði skilgreint sem formlegt ráðhús sameinaðs sveitarfélags, þar sem fram fari fundir sveitarstjórnar, móttöku og aðrir viðburðir. Starfsemi stjórnsýslunnar geti hins vegar verið dreift víðar.

Að mati Seyðfirðinga eru tækifæri fólgin í því að nýta styrk og sérstöðu Seyðisfjarðar í menningarmálum inn í menningarstefnu sameinaðs Austurlands. Þar liggi mikil þekking, reynsla og hæfni en nauðsynlegt sé að auka fjármagn inn í málaflokkinn fyrir allt sveitarfélagið til að sækja fram. Þar skipti miklu máli að starfandi verði menningarfulltrúi fyrir allt sveitarfélagið og varast ber að vald og umsýsla verði of miðlæg. Menning og íþróttir geta verið mikilvæg sameiningartákn í sameinuðu sveitarfélagi.

Á fundinum var mjög eindreginn stuðningur við að sem allra fyrst verði hafin vinna við að leggja Fjarðarheiðargöng milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs. Fundarfólk var sammála um að óþarfi væri að verja meiri tíma í að skoða aðra valkosti í jarðgangnamálum. Nú er mál að hefja hönnun Fjarðaheiðargangna með það að markmiði að framkvæmdir geti hafist á næstu 2 árum. Með tilkomu Fjarðarheiðargangna skapist tenging milli vöruflutninga og farþegahafnar á Seyðisfirði og alþjóðaflugvallar á Egilsstöðum sem muni skapa gríðarleg tækifæri í atvinnuþróun. Samhliða gangnagerðinni verði hægt að leggja heitt vatn og neysluvatn frá Héraði inn á Seyðisfjörð sem skapar enn betri lífsgæði í firðinum.

Í félags- og fræðslumálum sjá Seyðfirðingar tækifæri í skýrri stefnumótun fyrir nýtt sveitarfélag, í auknu samstarfi milli fagfólks, aukinni þjónustu við börn og eldri borgara og bættri aðstöðu til skólahalds. Mikilvægt er að varðveita skólahald á Seyðisfirði og styrkja og efla listadeildina sem er hluti af sérstöðu Seyðisfjarðar.

Á sviði íþrótta-og tómstundamála var m.a. horft til Djúpavogs sem fyrirmyndar í að byggja upp samfelldan skóla-og frístundadag fyrir börn. Mikil tækifæri liggja í því að samnýta íþróttaaðstöðu í sameinuðu sveitarfélagi og bjóða börnum og fullorðnum upp á fjölbreyttari tækifæri til íþrótta-og tómstundaiðkunar. Svo það megi gerast þarf að byggja upp almenningssamgöngur eða bjóða upp á frístundaakstur. Á fundinum kom fram að varast beri að skera niður í málaflokknum, heldur ætti að nýta fjármagnið betur og ráða íþrótta-og tómstundafulltrúa til að efla starfsemina jafnt fyrir börn og eldri borgara.

Seyðfirðingar sjá mikil tækifæri í því að nýta náttúru og sögu fjarðarins til fjölbreyttrar uppbyggingar í ferðaþjónustu. Í skipulags-og umhverfismálum sé mikilvægt að horfa til þeirrar uppbyggingar og skilgreina hlutverk mismunandi hafna í sveitarfélaginu.

Talsverðar áskoranir eru framundan við viðhald og uppbyggingu mannvirkja, svo sem íþróttamannvirki og skólahúsnæði. Mikilvægt er að setja fram raunhæfa áætlun um uppbyggingu og viðhald til framtíðar. Teikningar frá fundinum gerði listakonan Elín Elísabet Einarsdóttir http://www.elinelisabet.com/

Translate »
WordPress Video Lightbox