Austurþinghá

Nafnið var eitt þeirra sem sent var inn til nafnanefndar þegar kallað var eftir tillögum að nafni á nýtt sveitarfélag, en alls voru þrír sem stungu upp á nafninu.

Meðal þeirra raka sem nefnd voru af þeim sem stungu upp á nafninu var að nafnið eigi rætur í örnefnahefð sem fyrir hendi er á Austurlandi en um leið hvergi annars staðar á landinu (sbr. Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá). Það sé svipmikið, líklegt til að vekja athygli og yrði ekki svo auðveldlega ruglað saman við önnur byggðarlög.

Nafnanefnd vísaði nafninu til umsagnar Örnefnanefndar. Í bréfi nafnanefndar segir um fyrri liðinn Austur- að hann vísi til landfræðilegrar staðsetningar sveitarfélagsins og þess sem sameinar íbúa hins nýja sveitarfélags meira en nokkuð annað, að vera íbúar á Austurlandi. Einnig að fordæmi væru fyrir því að kenna sveitarfélög við höfuðáttirnar. Um síðari liðinn -þinghá sagði nafnanefnd að orðið væri sennilega þekktara innan marka hins nýja sveitarfélags en víðast annarsstaðar. Eiða- og Hjaltastaðaþinghá væri að finna á Fljótsdalshéraði og væru nágrannasveitir við bæði Borgarfjörð og Seyðisfjörð. Einnig að orðið þekktist innan Djúpavogshrepps, en sveitin sunnan Búlandstinds, innan við Djúpavog, nefndist áður Hálsþinghá. Orðið þinghá hefði þannig ríka sögulega skírskotun en væri jafnframt nokkuð einstakt fyrir svæðið. Nafnanefnd tiltók einnig að orðið hefði sögulega verið notað um ákveðið landsvæði þar sem þeir menn bjuggu er áttu til hlutaðeigandi þings að sækja lögum samkvæmt. Hugtakið væri þannig stjórnsýslulegt og lýsandi fyrir eðli sveitarfélaga.

Í niðurstöðu Örnefnanefndar er ekki mælt með nafninu en ekki heldur lagst gegn því. Almennt mælir nefndin með síðari liðnum –þinghá en mælir ekki með fyrri liðnum Austur-. Í niðurstöðu nefndarinnar segir meðal annars þegar fjallað er um fyrri liðinn:

Í íslenskri örnefnahefð eru áttatákn, s.s. orðin yfir höfuðáttirnar fjórar, notuð til nánari viðmiðunar og afmörkunar staða sem örnefni vísa til. Örnefnin teljast ekki vera kennd við höfuðáttirnar. Sem dæmi má nefna að í nafni sveitarfélagsins Austur-Hérað, sem síðar varð hluti Fljótsdalshéraðs, afmarkaði áttatáknið austur nánar þann hluta Fljótsdalshéraðs sem sveitarfélagið náði yfir. Svipað gildir um nafnið Norðurþing á sveitarfélagi sem varð til við sameiningu Húsavíkurbæjar, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps árið 2006. Hægt er að líta á nafnið sem afmörkun svæðis innan Þingeyjarsýslu, en auk þess var þekkt að verulegur hluti þess svæðis, sem hið nýja sveitarfélag náði yfir, hafði gengið undir nafninu daglegu tali og þótti það þess vegna helgast af hefð. Á hinn bóginn verður ekki sagt að í nafninu Austurbyggð, á sameinuðu sveitarfélagi Búða- og Stöðvarhrepps, hafi áttatáknið austur gefið á greinilegan hátt til kynna afmörkun eða viðmiðun, enda mælti Örnefndanefnd ekki með þessu nafni á sínum tíma.

Örnefnanefnd telur að nöfn með fyrri liðinn Austur- og einhvern þeirra síðarli liða sem lagðir eru til ekki heppileg vegna þess hve ógreinilega afmörkun áttatáknið austur gefur í þessu samhengi. Hægt er að lýsa mörgum sveitarfélögum þannig að þau séu fyrir austan önnur sveitarfélög. Í því sambandi virðist nafn af þessu tagi henta illa þegar horft er til legu annarra sveitarfélaga á Austurlandi, Fljótsdalshrepps, Vopnafjarðarhrepps og Fjarðabyggðar. Og að þessu leyti getur nafnið Austurbyggð tæplega talist sambærilegt við nafn sveitarfélagsins sem nær yfir vestasta hlut landsins, þ.e. Vesturbyggð.

Í tillögu nafnanefndar sveitarfélagsins er einnig talað um að nafn með fyrri liðinn Austur- vísi til þess að sveitarfélagið sé á Austurlandi. Örnefnanefnd telur ekki samræmast íslenskri örnefnahefð að kenna sveitarfélag við höfuðátt á þennan hátt.

Í umfjöllun um síðari liðinn segir Örnefnanefnd:

Orðið þing getur átt við sjálfa samkomuna sem og svæðið þar sem þeir búa er til þingsins eiga að sækja. Síðari liðurinn (svæði) í samsetta orðinu þinghá afmarkar merkinguna þannig að það vísar sérstaklega til þingsumdæmis líkt og nefnt er í rökstuðningi nafnanefndar sveitarfélagsins. Þar er jafnfram bent á að orðið þinghá geti talist til staðbundins orðfæris fyrir austan, sbr. byggðanöfnin Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá á Fljótsdalshéraði og Hálsþinghá í Djúpavogshreppi.

Með hliðsjón af niðurstöðu Örnefnanefndar, að leggjast ekki gegn nafninu, var nafnið eitt þeirra fimm sem nafnanefndin lagði til við undirbúningsstjórn að yrði kosið um. Undirbúningsstjórn ákvað í samræmi við það að nafnið yrði eitt sex nafna á kjörseðli í komandi nafnakosningum.

Translate »
WordPress Video Lightbox
Share This