Drekabyggð

Nafnið var eitt þeirra sem sent var inn til nafnanefndar þegar kallað var eftir tillögum að nafni á nýtt sveitarfélag, en alls voru tveir sem stungu upp á nafninu. Í rökstuðningi var vísað til þess að drekinn sé landvættur svæðisins.

Nafnanefnd vísaði nafninu til umsagnar Örnefnanefndar. Í bréfi nafnanefndar segir um fyrri liðinn Dreka- að hann vísi til landvættar Austurlands í skjaldamerki Íslands. Um síðari liðinn –byggð sagði nafnanefnd hann hafa verið notaðan á heiti sveitarfélaga þar sem er allnokkurt dreifbýli sem og eitt eða fleiri stór þéttbýlissvæði í samræmi við meginsjónarmið Örnefnanefndar. Fjöldi fordæma er fyrir notkun eftirliðarins í sveitarfélagaheitum.

Í niðurstöðu Örnefnanefndar er lagst gegn því að nafnið verði fyrir valinu. Í umfjöllun nefndarinnar um fyrri lið nafnsins eru tilgreind nokkur örnefni á landinu sem kennd eru við dreka. Síðan segir:

Hér eru á ferð nöfn á einstökum stöðum en ekki er hefð fyrir því að kenna stór svæði við dreka eða aðrar landvættir. Öðru máli gegndi ef á svæði nýsameinaðs sveitarfélags væri áberandi kennileiti sem héti Dreki. Þau Drekaörnefni sem koma fyrir eru tæplega tengd við landvættina, a.m.k. ekki almennt, enda er þau að finna í öllum landshlutum. Einnig er vert að benda á að samkvæmt sögninni um landvættirnar, eins og hún kemur fyrir í Heimskringlu, birtist drekinn í Vopnafirði, utan svæðis sameinaðs sveitarfélags.

Um síðari liðinn -byggð segir Örnefnanefnd að hún hafi mælt með honum þar sem svo hátti til að í senn sé að finna allnokkurt dreifbýli og eitt eða fleiri stór þéttbýlissvæði. Þetta eigi vel við nýsameinað sveitarfélag.

Með hliðsjón af niðurstöðu Örnefnanefndar, að leggjast gegn nafninu, var nafnið ekki eitt þeirra fimm sem nafnanefndin lagði til við undirbúningsstjórn að yrði kosið um. Undirbúningsstjórn ákvað hins vegar að bæta nafninu við lista þeirra nafna sem yrðu á kjörseðli í komandi nafnakosningum, sem eru alls sex talsins.

Translate »
WordPress Video Lightbox
Share This