Múlaþing

Nafnið var eitt þeirra sem sent var inn til nafnanefndar þegar kallað var eftir tillögum að nafni á nýtt sveitarfélag, en alls voru ellefu sem stungu upp á nafninu. Í rökstuðningi þeirra sem lögðu nafnið til segir meðal annars að sveitarfélögin sem nú sameinast séu öll úr Múlasýslum sem nefndar séu eftir Þingmúla, sem um aldir var helsti þingstaður Austfirðinga. Múlatenging sé víða í hinu nýja sveitarfélagi, meðal annars séu bæði tímarit og Lionsklúbbur með þessu nafni, og örnefnið Múli finnist í öllum þeim fjórum sveitarfélögum sem sameinuðust. Þing sé heiti yfir lögbundna samkomu kjörinna fulltrúa á ákveðnu svæði og geti því vel átt við um stjórnsýslueiningu eins og sveitarfélag. Einnig tóni nafnið vel við nágrannasveitarfélagið Norðurþing.

Nafnanefnd vísaði nafninu til umsagnar Örnefnanefndar. Í bréfi nafnanefndar segir meðal annars um fyrri liðinn Múla- að hann vísi til þess kennileitis sem svæðið hefur lengst af verið kennt við, fjallið Þingmúla í Skriðdal. Fjallið sé auk þess hvað næst því að geta talist miðsvæðis í hinu nýja sveitarfélagi. Um síðari liðinn -þing sagði nafnanefnd að hann hefði ríka skírskotun til stjórnsýslu á Íslandi frá landnámi og fordæmi væru fyrir notkun hans.

Í niðurstöðu Örnefnanefndar er ekki mælt með nafninu en ekki heldur lagst gegn því. Almennt mælir þó nefndin með fyrri liðnum Múla-, sem og síðari liðnum -þing.

Um fyrri liðinn segir meðal annars í niðurstöðu nefndarinnar:

Eins og segir í rökstuðningi nafnanefndar vísar forliðurinn Múla- til fjallsins Þingmúla í Skriðdal, þekkts kennileitis sem löng hefð er fyrir að kenna svæðið við, sem jafnframt er nálægt því að geta talist miðsvæðis í nýja sveitarfélaginu. Á þessum stað var til forna haldið vorþing Austfirðingafjórðungs og þannig felst í nafninu vísun til staðbundinna stjórnvalda.

Líkt og ráða má af rökstuðningi nafnanefndar hlýtur nafn með fyrri leiðinn Múla- að teljast falla vel að því markmiði að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð.

Líkt og segir að framan var til forna þingstaður undir Múla og var umdæmi þingsins allur Austfirðingafjórðungur, þ.e. stærra svæði en sameinað sveitarfélag. Einnig voru sýslurnar sem náðu yfir fjórðunginn kenndar við Múla. Ekki verður þó séð að þetta geti talist annmarki á nafni með fyrri liðinn Múla- ef nafnið er nýtt og ekki er þegar hefð fyrir notkun þess fyrir tiltekið svæði […].

Um síðari liðinn -byggð segir Örnefnanefnd að hún hafi mælt með honum þar sem svo hátti til að í senn sé að finna allnokkurt dreifbýli og eitt eða fleiri stór þéttbýlissvæði. Þetta eigi vel við nýsameinað sveitarfélag.

Örnefnanefnd gerir hins vegar sérstakan fyrirvara við nafnið Múlaþing sem leiðir til þess að hún mælir ekki með því, þó ekki sé heldur lagst gegn því. Um það segir meðal annars í áliti nefndarinnar:

Sá annmarki er á því nafni að það getur talist stangast á við 2. meginsjónarmið Örnefnanefndar um nöfn sveitarfélaga sem hljóðar svo:

Forðast skyldi að ný stjórnsýsluheiti geti útilokað, þrengt að eða raskað á annan hátt merkingu eða notkun rótgróinna heita sem tengjast svæðum eða byggðarlögum innan sveitarfélags, nágrannasveitarfélags eða héraðs.

Hið forna nafn Múlaþing gat átt við allt umdæmi þingsins, þ.e. allan Austfirðingafjórðunginn. Að hefðin fyrir þessu nafni á allan fjórðunginn er lifandi sést meðal annars í notkun í titli byggðarsögu Austurlands, Sveitir og jarðir í Múlaþingi (sem út kom 1974-1978 og 1995) og í nafni héraðstímaritsins Múlaþing sem komið hefur út síðan árið 1966.

Með hliðsjón af niðurstöðu Örnefnanefndar, að leggjast ekki gegn nafninu, var nafnið eitt þeirra fimm sem nafnanefndin lagði til við undirbúningsstjórn að yrði kosið um. Undirbúningsstjórn ákvað í samræmi við það að nafnið yrði eitt sex nafna á kjörseðli í komandi nafnakosningum.

Translate »
WordPress Video Lightbox
Share This