Múlaþinghá

Nafnið var eitt þeirra sem sent var inn til nafnanefndar þegar kallað var eftir tillögum að nafni á nýtt sveitarfélag, en alls voru ellefu sem stungu upp á nafninu. Í rökstuðningi þeirra sem lögðu nafnið til segir meðal annars að þarna séu sett saman gömul örnefni eða nafnorð sem tengjast sögu og landafræði vegna Þingmúla og Múlaþings. Þá skipti miklu að orðið þinghá, sem sé gömul stjórnsýslueining, varðveitist sem hugtak. Það sé einkennandi fyrir tungutak svæðisins og því ólíklegt að það verði gert annarsstaðar á landinu. Þá sé nafnið þjált og gott sameiningartákn fyrir sveitarfélögin sem sameinast.

Nafnanefnd vísaði nafninu til umsagnar Örnefnanefndar. Í bréfi nafnanefndar segir meðal annars um fyrri liðinn Múla- að hann vísi til þess kennileitis sem svæðið hefur lengst af verið kennt við, fjallið Þingmúla í Skriðdal. Fjallið sé auk þess hvað næst því að geta talist miðsvæðis í hinu nýja sveitarfélagi. Um síðari liðinn -þinghá sagði nafnanefnd að orðið væri sennilega þekktara innan marka hins nýja sveitarfélags en víðast annarsstaðar. Eiða- og Hjaltastaðaþinghá væri að finna á Fljótsdalshéraði og væru nágrannasveitir við bæði Borgarfjörð og Seyðisfjörð. Einnig að orðið þekktist innan Djúpavogshrepps, en sveitin sunnan Búlandstinds, innan við Djúpavog, nefndist áður Hálsþinghá. Orðið þinghá hefði þannig ríka sögulega skírskotun en væri jafnframt nokkuð einstakt fyrir svæðið. Nafnanefnd tiltók einnig að orðið hefði sögulega verið notað um ákveðið landsvæði þar sem þeir menn bjuggu er áttu til hlutaðeigandi þings að sækja lögum samkvæmt. Hugtakið væri þannig stjórnsýslulegt og lýsandi fyrir eðli sveitarfélaga.

Í niðurstöðu Örnefnanefndar er mælt með nafninu. Um fyrri liðinn Múla- segir meðal annars í niðurstöðu nefndarinnar:

Eins og segir í rökstuðningi nafnanefndar vísar forliðurinn Múla- til fjallsins Þingmúla í Skriðdal, þekkts kennileitis sem löng hefð er fyrir að kenna svæðið við, sem jafnframt er nálægt því að geta talist miðsvæðis í nýja sveitarfélaginu. Á þessum stað var til forna haldið vorþing Austfirðingafjórðungs og þannig felst í nafninu vísun til staðbundinna stjórnvalda.

Líkt og ráða má af rökstuðningi nafnanefndar hlýtur nafn með fyrri leiðinn Múla- að teljast falla vel að því markmiði að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð.

Líkt og segir að framan var til forna þingstaður undir Múla og var umdæmi þingsins allur Austfirðingafjórðungur, þ.e. stærra svæði en sameinað sveitarfélag. Einnig voru sýslurnar sem náðu yfir fjórðunginn kenndar við Múla. Ekki verður þó séð að þetta geti talist annmarki á nafni með fyrri liðinn Múla- ef nafnið er nýtt og ekki er þegar hefð fyrir notkun þess fyrir tiltekið svæði […].

Í umfjöllun um síðari liðinn segir Örnefnanefnd:

Orðið þing getur átt við sjálfa samkomuna sem og svæðið þar sem þeir búa er til þingsins eiga að sækja. Síðari liðurinn (svæði) í samsetta orðinu þinghá afmarkar merkinguna þannig að það vísar sérstaklega til þingsumdæmis líkt og nefnt er í rökstuðningi nafnanefndar sveitarfélagsins. Þar er jafnfram bent á að orðið þinghá geti talist til staðbundins orðfæris fyrir austan, sbr. byggðanöfnin Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá á Fljótsdalshéraði og Hálsþinghá í Djúpavogshreppi.

Með hliðsjón af niðurstöðu Örnefnanefndar, að mæla með nafninu, var nafnið eitt þeirra fimm sem nafnanefndin lagði til við undirbúningsstjórn að yrði kosið um. Undirbúningsstjórn ákvað í samræmi við það að nafnið yrði eitt sex nafna á kjörseðli í komandi nafnakosningum.

Translate »
WordPress Video Lightbox
Share This