Borgarfjörður eystri

Ólafur Arnar Hallgrímsson

Skálabergi Borgarfirði eystra

Ég gef kost á mér til setu í heimastjórn fyrir Borgarfjörð í kosningunum þann 19. sept næstkomandi.

Ég tel að við sameiningu þessa þar sem heimastjórnir eru nýmæli sé ekki við hæfi að fara að gefa loforð og fyrirheit.

Heimastjórnir verða fyrst og fremst að vinna eftir þeim reglum sem þeim eru settar innan fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins og vera eftir fremsta megni tengiliður íbúanna inn í sveitarstjórn.

Óli Hall.

Alda Marín Kristinsdóttir

Víkurnesi 2, Borgarfirði eystra

Kæru Borgfirðingar,

Það er mér ljúft og skylt að gefa kost á mér í heimastjórn fyrir Borgarfjörð og verði ég kjörin í þetta verkefni mun ég sinna starfinu af heilindum.

Ég ætla mér að vera málsvari allra íbúa fjarðarins og gæta hagsmuna ykkar í einu og öllu.

P.s. Ég á heima í Víkurnesi 2 (við hliðina á Dóra).

Djúpivogur

Kristján Ingimarsson

Búlandi 4, 765 Djúpavogi

Ég hef setið í sveitarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili og verið formaður Fræðslu- tómstunda og jafnréttisnefndar og þekki því sveitarstjórnarstigið ágætlega .  

Ég hafði ekki áhuga á að bjóða mig fram til sveitarstjórnar í nýju sveitarfélagi eða að taka þátt í pólitísku starfi í tengslum við það en ég gæti hugsað mér að starfa í heimastjórn og nýta kraftana frekar í heimabyggð.  Þar liggur metnaður minn, að vinna fyrir Djúpavog og nærsveitir.

Skúli Heiðar Benediktsson

Steinar 6
765 Djúpivogur

Mig langar að kynna mig til framboðs í Heimastjórn.

Helstu ástæður.

Á sömu línu og Eyþór hvað pólitík varðar.
Vil ekki svara fyrir stóru stjórnmálaflokkana í landsmálapólitík .
En vil gjarnan vinna að málum í heimabyggð.

Þá helst , Skipulagsmál, umhverfismál í víðum skilningi, atvinnumál , samgöngur, veitur.

Bergþóra Birgisdóttir

Steinum 13
765 Djúpivogur

Ég vil gefa kost á mér í heimastjórn. Ég hef mikinn áhuga á því að taka þátt í því að móta verkefni fyrstu heimastjórnar Djúpavogs sem mér finnst mjög spennandi verkefni.

Ég var kjörin í sveitarstjórn árið 2018 og setið bæði í skipulagsnefnd og atvinnu- og menningarmálanefnd. Reynslu mína þar tel ég nýtast vel í því nýja verkefni sem heimastjórnir eru.

Ég sat einnig í undirbúningsnefnd vegna sameiningar og sú vinna sem þar hefur farið fram kemur líka til með  að nýtast vel.

Bergþóra Birgisdóttir
Steinum 13

Sigrún Eva Grétarsdóttir

Steinar 15
765 Djúpivogur

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til setu í heimastjórn í komandi kosningunum þann 19. sept næstkomandi. Þetta nýja fyrirkomulag varðandi heimastjórnir þykir mér vera spennandi og langar að taka þátt í vinnu tengdu mínu nærsamfélagi.

Um mig:

Ég er uppalin á Fáskrúðsfirði og flutti hingað á Djúpavog ásamt eiginmanni og þrem börnum fyrir rúmlega ári síðan. Hér unum við hag okkar vel og langar mig að leggja mitt lóð á vogaskálarnar til þess að gera gott enn betra.

Ingi Ragnarsson

Hraun 3, 765 Djúpivogur

Ég vil formlega bjóða mig fram til setu í heimastjórn Djúpavogs.
Heimastjórn er að mínu mati spennandi þróunarverkefni sem ég tel mig geta lagt mitt á vogaskálarnar við að móta. Mig langar sérstaklega að horfa til íbúalýðræðis og hvernig heimastjórnin getur skapað persónulegri tengingu milli heimamanna og sveitarstjórnar í stóru sveitarfélagi.

Ingi Ragnarsson

Hraun 3

Fljótsdalshérað 

Björgvin Stefán Pétursson

Hamragerði 7, 700 Egilsstaðir.

Ég gef kost á mér í heimastjórn Fljótsdalshéraðs í kosningunum næstkomandi laugardag.

Ég hef áhuga á því að taka þátt í uppbyggingu á Fljótsdalshéraði og í hinu sameinaða sveitarfélagi. Ég á auðvelt með að vinna með fólki og tel ég að kraftar mínir myndu nýtast vel á þessum nýja og spennandi vettvangi. Ég er ungur fjölskyldumaður sem er til í að leggja mitt að mörkum til þess að gera gott samfélag enn betra.

Um mig:

Ég er 28 ára og er uppalinn á Fáskrúðsfirði. Ég er giftur Bryndísi Björtu Hilmarsdóttur sem að er frá Egilsstöðum og saman eigum við einn son og með annan á leiðinni. Ég hef lokið meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og starfa nú hjá Skattinum á Egilsstöðum.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir

Tjarnarlönd 19, Egilsstöðum

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til setu í heimastjórn á Fljótsdalshéraði þar sem mig langar að leggja mitt af mörkum til að efla samfélagið í nýja sveitarfélaginu okkar. Mér finnst spennandi að taka þátt í að byggja upp og móta heimastjórnina sem er nýjung á sveitastjórnarstiginu hér á landi. Ég tel mig hafa margt fram að færa til þessa verkefnis og mun ekki síður vera málsvari dreifbýlisins á Fljótsdalshéraði en þéttbýlisins hljóti ég umboð til stjórnarsetunnar. Ég hef mikla reynslu úr atvinnulífinu sem ég tel að muni nýtast mér í þeirri vinnu sem býður nýrrar heimastjórnar.

Um mig:

Ég er uppalin í Merki á Jökuldal, dóttir hjónanna Sólrúnar Hauksdóttur frá Hnefilsdal og Stefáns Ólasonar frá Merki. Ég gekk í Menntaskólann á Egilsstöðum og nam fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Ég starfaði sem markaðs- og kynningarstjóri Háskólans á Akureyri áður en ég flutti aftur heim fyrir sjö árum og tók við starfi yfirmanns samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðáli. Ég er gift Guðmundi H. Gústavssyni og saman eigum við drengina Hinrik Nóa og Óliver Ara. Við erum búsett á Egilsstöðum en ég á í raun tvö heima; Egilsstaði annars vegar og Merki á Jökuldal hins vegar.

Skúli Björnsson

Fjósakambi 14

701 Egilsstaðir

Heil og sæl öll

Ég gef kost á mér að vera valkostur í kosningu til Heimastjórnar Fljótsdalshéraðs.

Ég er borinn og barnfæddur héraðsmaður. Hef komið að sveitarstjórnarmálum frá árinu 1998 þegar ég tók sæti í bæjarstjórn Austur-Héraðs og síðar í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Hef setið í allflestum nefndum en þó lengst verið í stjórn Hitaveitu Egilsstaða og Fella.

Að mínu mati er starf í heimastjórn í nýju sveitarfélagi mjög mikilvægt þróunarverkefni á sviði stjórnsýslu sveitarfélaga á landsvísu. Tíminn fram að næstu sveitarstjórnarkosningum verður prófsteinn á virkni heimastjórnanna og því mikilvægt að vel takist til. Ég er tilbúinn í það verkefni ef íbúar Fjótsdalshéraðs óska eftir því. Ég vil þó endilega að fleiri gefi kost á sér að vera valkostur íbúa í fyrstu kosningu til heimastjórnar og sérstaklega konur.

Jóhann Gísli Jóhannsson

Breiðavaði, 701 Egilsstaðir

Ég gef kost á mér til setu í heimastjórn fyrir Fljótsdalshérað í kosningum þann
19. September n.k.
Ég hef áhuga á að taka þátt í mótun heimastjórnar í nýju sveitarfélagi.
Ég tel nauðsynlegt að fulltrúi dreifbýlis á Fljótsdalshéraði eigi setu í heimastjórn þar sem verkefni hennar eru meðal annars landbúnaður, umhverfismál og deiliskipulagsmál.
Ég hef unnið lengi að félagsmálum og tel mig hafa haldgóða reynslu á því sviði.
Ég er formaður Búnaðarsambands Austurlands og einnig Landssamtaka skógareiganda og hef starfað í mörgum nefndum félagasamtaka og sveitarfélaga.
Framboð mitt er ekki síst tilkomið vegna þess að ég tel ekki æskilegt að fulltrúar í heimastjórn komi af framboðslistum til sveitarstjórnar þar sem að sveitarstjórn skipar þriðja fulltrúann í heimastjórnina.

Ég er fæddur og uppalinn á Breiðavaði er giftur Ólöfu Ólafsdóttur, við tókum við búi á Breiðavaði 1980 og höfum starfað við það síðan.

Elí Þór Vídó Gunnarsson

Sunnufell 5, 700 Egilsstaðir.

 Ég Elí Þór Vídó hef hug á að bjóða mig fram til heimastjórnar Fljótsdalshéraðs. Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík en hef verið búsettur hér á héraði s.l. sex ár. Hér hef ég stungið niður rótum og fólkið hér í samfélaginu hefur tekið vel á móti mér og sýnt að þetta er samfélag sem er gott að búa í. Reynsla mín kemur út öllum áttum, félagsstarf hefur skipað stóran sess í lífi mínu t.a.m. hef ég setið í stjórn hjá félaginu Ungt Austurland ásamt Björgunarsveitinni Jökull í Jökuldal.

Ég hef kynnst fólki víða um fjórðunginn þegar ég starfaði sem umboðsaðili hjá Ölgerðinni um fjögurra ára skeið. Í dag eru verkefnin fjölbreyttari ég rek afþreyingarfyrirtækið East Highlanders sem er staðsett á Hallormsstað. Þar að auki rek ég fyrirtækið Dyravarðaþjónusta Austurlands ásamt kærustu minni Lilju Björnsdóttir sem hefur sinnt almennri gæslu á Austurlandi.

Hlutverk heimastjórnar er mjög mikilvægt að mínu mati sem á að tryggja að þverskurður samfélagsins hafi rödd gagnvart sínum þéttbýliskjarna. Ég er reiðubúinn að takast á við þau verkefni sem bíða ef til þess kemur að íbúar Fljótsdalshéraðs vilja fá mig.

Sveinn Jónsson

Norður-Kollur 1, 700 Egilsstaðir

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til setu í heimastjórn Fljótsdalshéraðs. Ég hef alla tíð verið sameiningarsinni og með því borið hag Fljótsdalshéraðs og Austurlands alls fyrir brjósti í gegn um tíðina. Skipulagsmál, atvinnumál og alhliða uppbygging samfélagsins er nauðsyn þess að hér vilji fólk búa og afkomendur festi hér rætur.

 Ég er borinn og barnfæddur Egilsstaðamaður. Eftir að hafa lokið verkfræðinámi í Skotlandi og starfi í Noregi um nokkurra ára skeið, snéri ég aftur með fjölskyldu mína og settist að í heimabyggð.

Starfsvettvangur var í byrjun hér en teygði sig í tímans rás til verkefna vítt um Austurland, landið allt og erlendis – alla tíð launamaður. Hef ég þannig komið að rekstri og uppbyggingu fyrirtækja og stuðlað að því að nokkur stærstu verkefni til framfara fyrir fjórðunginn hafa orðið að veruleika.  

Samhliða starfi voru mér framan af stjórnmál og sveitarstjórnarmál hugleikin en þó ekki flokksbundinn undanfarna áratugi.  Ég átti þess kost þannig að sitja hér í ýmsum nefndum og stjórnum svo og í sveitarstjórn um tíma auk setu á Alþingi í nokkur skipti sem varaþingmaður.  Ég er nú eftirlaunaþegi með góðan tíma til starfa.

Baldur Þ. Bjarnason

Heimatún 2, 700 Egilsstaðir

Góðan Dag! 

Ég heiti Baldur Þ. Bjarnason og ég hef ákveðið að bjóða fram krafta mína í heimastjórn.

Ég flutti í sveitarfélagið í ágúst með konu minni og tveimur börnum og búum við nú í Fellabæ. Áður en við fluttum hingað bjuggum við á Kjalarnesi. 

Ég er 28 ára og starfa í grunnskóla Egilsstaða sem stuðningsfullrúi.

Ég hef mikla reynslu af félagsstörfum og einstaklega mikinn áhuga á sveitarstjórnarmálum.

Ég sat sem aðalmaður í íbúasamtökum kjalarness síðustu tvö ár og hef því fengið að kynnast stjórnsýslunni vel.

Ég tel það vera kost að koma inn í heimastjórn með nýtt sjónarhorn og ómótaðar skoðanir um hið sameiginlega sveitarfélag.

Skólamál og leikskólamál eru mér augljóslega mikilvæg en þó auðvitað að tryggja að þjónustustig sé hátt!

Seyðisfjörður 

Ólafur Hr. Sigurðsson,

Dalbakka 3. Seyðisfirði

Ég undirritaður hef ákveðið að gefa kost á mér í heimastjórn fyrir Seyðisfjörð í kosningunum þann 19. sept.  Hef ég mikinn áhuga á því að taka þátt í því starfi að móta verkefni heimastjórnar. Sérstaklega spennandi er að sjá hvernig til tekst við að láta persónukjörna-og pólitískt kjörna fulltrúa vinna saman að því markmiði að gera hvert svæði hins nýja sveitarfélags öflugra en það er í dag.  En það verður að teljast eitt af meginmarkmiðum svona sameiningar. Að mínum mati er ljóst að þetta nýja sveitarfélag verður langt um sterkara út á við eftir sameininguna en kannski er ekki eins ljóst hvernig tryggt verður að þetta muni efla byggðakjarnana á sama tíma.  Það skiptir því miklu máli þekking þeirra og reynsla sem veljast í heimastjórn. Ég tel að reynsla mín og þekking á innviðum sveitarfélaga og rekstri þeirra komi að góðum notum í þessa vinnu. Ég hef unnið með fólki nánast allan minn starfsferil sem íþróttakennari, skólastjóri og bæjarstjóri, auk fjölda starfa fyrir íþróttahreyfinguna og samtök sveitarfélaga. Í mínum störfum hef ég aldrei haft neinar áhyggjur af því hvaða pólitískar skoðanir fólk hefur og treysti mér ágætlega til að vinna með hverjum sem er.
Þeir sem vilja mig í heimastjórn geta því sett nafn mitt á kjörseðil heimastjórnar.
Með vinsemd og virðingu.
Ólafur Hr. Sigurðsson, Dalbakka 3. Seyðisfirði.

Rúnar Gunnarsson

Bröttuhlíð 6, Seyðisfirði

Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að bjóða fram krafta mína til setu í heimastjórn Seyðisfjarðar.

Síðustu 6 árin hef ég setið í nefndum og ráðum fyrir Seyðisfjarðarkaupstað, þar af síðustu 2 ár sem bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs. Ég tel mig hafa góða þekkingu á þeim málum sem varða Seyðisfjörð og mun áfram óhikað taka ákvarðanir um það sem okkur varðar.

Ég þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum um mína persónu, tel að flestir Seyðfirðingar þekki til mín að einhverju leyti. En ég er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði, bjó um 15 ára skeið í Englandi og kom þaðan heim aftur 2010 með konu og 2 börn. Ég tel mig hafa heilmargt fram að færa sem kemur samfélaginu til góða plús það að ég skarta miklu og ljótu skeggi sem gjarnan vekur umtal.

Ef vilji er fyrir því að ég taki sæti í heimastjórn, þá hvet ég ykkur til að setja á kjörseðilinn:

Rúnar Gunnarsson

Bröttuhlíð 6.

Að lokum hvet ég hvern þann sem hefur áhuga á að vera með í heimastjórn að gefa kost á sér.

Kær kveðja, Rúnar

Svandís Egilsdóttir

Vesturvegi 8, Seyðisfirði

Ég gef hér með kost á mér til setu í heimastjórn.

Ég er myndlistarkennari og þjóðfræðingur að mennt og hef verið búsett hér á Seyðisfirði  sl. fjögur ár, starfað þann tíma sem skólastjóri í sameinuðum Seyðisfjarðarskóla.  Ég er í leyfi frá stjórnuninni  þetta skólaárið en nýti tímann til að sinna fjölskyldunni og listsköpun og ég er í fjarnámi í HÍ í vetur til að efla mig í stjórnunarfræðunum.  Þar fyrir utan er ég í framboði til sveitarstjórnar í komandi kosningunum og sit í 6.sæti á lista VG.  

Mér er umhugað um að atvinnulíf, menntun- og menningarstarfsemi blómstri því að ég er áhugamanneskja um að okkur öllum gangi vel og að við þrífumst í því sem við erum að gera, bætum það sem þarf að bæta og vöxum og döfnum í sátt. 

Ég myndi leggja mig fram um og gera mitt besta til að finna góðar leiðir með ykkur til að heimastjórnin virki vel fyrir okkur og að rödd og hagsmunir íbúa á Seyðisfirði heyrist í sameinuðu sveitarfélagi. 

Með ósk um stuðning 

Svandís Egilsdóttir

Vesturvegi 8

Skúli Vignisson

Garðarsvegi 9, Seyðisfirði

Ég gef kost á mér í heimastjórn Seyðisfjarðar.

 Ég hef mikinn áhuga á byggðamálum, atvinnulífi og skipulagsmálum og tel að

mín þekking og reynsla geti eflt samfélagið.

 Ég starfa sem framkvæmdastjóri MSV ehf vélsmiðju á Egilsstöðum og er með BS.c. Gráðu í hátækniverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík

 Dæmi um nefndarstörf sem ég hef tekið að mér eru seta í Umhverfisnefnd Seyðisfjarðar 2018-2020, stjórnarformaður Tækniminjasafns Austurlands 2019-2020, seta í vinnuhóp fyrir “Gamla Ríkið” og varamaður í bæjarstjórn Seyðisfjarðar.

 Skúli Vignisson – Garðarsvegi 9

Translate »
WordPress Video Lightbox
Share This