Verði tillaga um sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkt er ráðgert að setja upp nýtt stjórnskipulag með stoð í tilraunaákvæði í sveitarstjórnarlögunum. Það ákvæði veitir heimild til að gera breytingar á stjórn­skipu­lagi sveitarfélags með heimild sveitarstjórnarráðuneytisins. Tilraunin skal ekki gerð til skemmri tíma en átta ára.

Stjórnskipulagshugmyndin byggir á ein­faldri og skil­virkri stjórn­sýslu, ásamt vald­dreif­ingu til heima­stjórna sem fara með til­tekin nær­þjón­ustu­verk­efni, t.d. afgreiðslu deiliskipulags.

Mark­miðið með heima­stjórn­um er að tryggja áhrif íbúa á nærsamfélag sitt og bregð­ast við þeirri gagn­rýni að jað­ar­byggðir missi áhrif í sam­ein­uðum sveit­ar­fé­lög­um. Heimastjórnarhugmyndin hefur vakið mikla athygli og hafa fjölmiðlar fjallað um hana undanfarið, m.a. morgunútvarpið á Rás 1 og Kjarninn.

Heimastjórnir verða fjórar og munu þrír fulltrúar sitja í hverri heimastjórn. Það hefur vakið mikla athygli og umræðu að tveir fulltrúanna verða kosnir beinni kosningu af íbúum á hverjum stað. Þriðji fulltrúinn á sæti í bæjarstjórn, en fulltrúarnir eru jafn réttháir og atkvæðisvægi hið sama. Með þessu móti verður sterk tenging á milli bæjarstjórnar og heimastjórna.

Nánari umfjöllun um stjórnskipulag sameinaðs sveitarfélags má finna í skýrslu Samstarfsnefndar.  

27.05.19. Sveitarfélagið Austurland (PDF)

Translate »
WordPress Video Lightbox