Spurningar og svör

Hér fyrir neðan eru algengar spurningar og svör við heimastjórn.

Hvað eru heimastjórnir?

Heimastjórnir eru fastanefndir innan sveitarfélagsins og starfa í umboði sveitarstjórnar. Í hverri heimastjórn verða þrír fulltrúar og með hverri heimastjórn starfar starfsmaður sem er fulltrúi sveitarstjóra á viðkomandi svæði.

Heimastjórnir eru eftirfarandi:

  1. Heimastjórn Borgarfjarðar
  2. Heimastjórn Djúpavogs
  3. Heimastjórn Fljótsdalshéraðs
  4. Heimastjórn Seyðisfjarðar

Umdæmi hverrar heimastjórnar miðast við sveitarfélagamörk Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Hvað gera heimastjórnir?

Markmið heimastjórna er að tryggja áhrif og aðkomu heimamanna á hverjum stað að ákvörðunum sem varða þeirra nærumhverfi. Heimastjórn annast þau störf sem sveitarstjórn felur henni og snýr að viðkomandi byggðahluta. Heimastjórn getur ályktað um málefni byggðarinnar og þannig komið málum á dagskrá sveitarstjórnar. Helstu verkefni heimastjórna snúa að deiliskipulags- og umhverfismálum, menningarmálum, landbúnaðarmálum og umsögnum um staðbundin málefni og leyfisveitingar.

Nánari lýsingu á verkefnum heimastjórna má finna í 48. gr. Samþykktar um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins.

Í 36. gr. samþykktanna má sjá nánari lýsingu á kosningum og kjörgengi í heimastjórnir. 

Hverjir eru í framboði til heimastjórnar?

Kosningarétt og kjörgengi í kosningum til heimastjórna hafa íbúar viðkomandi hluta sveitarfélagsins, samkvæmt kjörskrá. Það þýðir að allir þeir sem eru á kjörskrá á viðkomandi svæði eru í framboði til heimastjórnar.

Líklega munu einstaklingar gefa sig fram sem sækjast eftir kjöri í viðkomandi heimastjórn.

 

Ég vil bjóða mig fram. Hvað á ég að gera?

Kosningarétt og kjörgengi í kosningum til heimastjórna hafa íbúar viðkomandi hluta sveitarfélagsins, samkvæmt kjörskrá. Það þýðir að allir þeir sem eru á kjörskrá á viðkomandi svæði eru í framboði til heimastjórnar.

Þeir sem vilja gefa kost á sér til heimastjórna þurfa því ekki að skila inn framboði til kjörstjórnar. Æskilegt er að þeir sem vilja gefa kost á sér kynni sig og sínar áherslur fyrir kjósendum í viðkomandi hluta sveitarfélagsins. Þar sem kjósendur þurfa að skrá nafn og heimilisfang á kjörseðilinni, er mikilvægt að hafa þær upplýsingar aðgengilegar.

 

Má ég bjóða mig fram í sveitarstjórn og heimastjórn?

Já, það er leyfilegt að vera í framboði bæði til heimastjórnar og sveitarstjórnar, og taka sæti í báðum stjórnum.

 

Hvernig er kosið í heimastjórn?

Heimastjórnir eru skipaðar þremur fulltrúum. Með hverri heimastjórn starfar starfsmaður sem er fulltrúi sveitarstjóra á viðkomandi svæði.

Tveir fulltrúar og tveir til vara skulu kosnir beinni kosningu íbúanna á viðkomandi svæði, þ.e. við heimastjórnarkosningar. Heimastjórnarkosningar fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum.

Hver kjósandi kýs einn aðalmann í heimastjórn. Kjósandi skrifar á kjörseðil fullt nafn og heimilisfang þess sem hann kýs. Þeir tveir einstaklingar sem fá flest atkvæði eru kjörnir aðalmenn og varamenn þar á eftir í samræmi við fjölda atkvæða.

Einn fulltrúi og annar til vara eru kjörnir af sveitarstjórn og skulu þeir vera aðalfulltrúar í sveitarstjórninni. Kjör þeirra fer fram á sama fundi og sveitarstjórn kýs fulltrúa í fastanefndir og ráð. Sveitarstjórn kýs formann úr hópi aðalmanna í heimastjórn á þeim sama fundi.

Nánari lýsingu á kjöri í Heimastjórnir má finna í 36. gr. Samþykktar um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins.

Hvernig er kjörseðillinn?

Kjörseðill í heimastjórnarkosningum er einfaldur og skal kjósandi skrifa fullt nafn og heimilisfang þess einstaklings hann kýs. Aðeins skal skrifa eitt nafn á kjörseðilinn. Á kjörstað verða kjörskrár aðgengilegar kjósendum til að sjá hverjir eru kjörgengir í heimastjórn.

 

Hvar get ég kosið í Heimastjórn?

Heimastjórnarkosningar fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum og eru kjörstaðir þeir sömu. Kjörstaðir verða í hverjum hluta sveitarfélagsins samkvæmt eldri sveitarfélagamörkum og kjördeildir taka mið af því. Yfirkjörstjórn mun auglýsa nánari upplýsingar um kjörstaði og kjördeildir. Hægt er að kjósa utankjörfundar hjá sýslumönnum og sendiráðum.

 

Talning atkvæða og úrslit

Á kjörstað skulu vera sérstakir atkvæðakassar vegna heimastjórnarkosninga. Atkvæðatalning skal fara fram á vegum yfirkjörstjórnar. Úrslit kosninga skulu kynnt þegar þau liggja fyrir. Yfirkjörstjórn skal tilkynna aðalmönnum og varamönnun um kosningu þeirra.

 

Translate »
WordPress Video Lightbox
Share This