Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum

Þann 4. apríl mættu um 100 íbúar eða 3% íbúa Fljótsdalshéraðs á íbúafund í Valaskjálf um verkefnið Sveitarfélagið Austurland. Fundurinn í Valaskjálf var síðastur í fundaröð þar sem kynntar voru hugmyndir um uppbyggingu stjórnskipulags nýs sveitarfélags og þjónustu málaflokka. Eins og á öðrum fundum var almennur stuðningur var við þær hugmyndir sem kynntar voru, en á heimasíðu verkefnisins svausturland.is má finna umfjöllun og minnisblöð um þær hugmyndir.

Á fundinum komu fram tvær tillögur að nafni á sveitarfélagið. Annars vegar Múlaþing og hins vegar Múlaþinghá sem væri tilvísun í Múlann og þá hefð að sveitarfélög á Fljótsdalshéraði beri endinguna -þinghá.

Héraðsbúar styðja hugmyndina um heimastjórnir enda geti hún tryggt sjálfstæði hvers kjarna fyrir sig að vissu leiti. Bent var á að útfæra þarf hugmyndina vel þannig að það verði enginn misskilningur um hlutverk heimastjórna, sveitarstjórnar og fagnefnda. Eins beri að varast að heimastjórnir einangrist ekki í sínum hlutverkum. Tryggja þarf skýra og góða tengingu við miðlæga stjórnsýslu og sveitarstjón. Deiliskipulagsvinna gæti verið eitt af meginverkefnum heimastjórna, ásamt öðrum nærþjónustuverkefnum. Fram komu efasemdir um þörf fyrir heimastjórn á Fljótsdalshéraði. Hins vegar komu líka fram sjónarmið um að heimastjórnir skapi tækifæri fyrir íbúa kjósa fólk annars vegar og hins vegar flokka. Sumir þátttakenda voru ósammála því að hafa sveitarstjórnina tiltölulega fjölmenna. Lagt var til að atvinnu-og menningarmál heyri undir bæjarráð til að veita þeim málaflokkum meira vægi.

Áhersla var lögð á að varðveita þann mannauð sem býr í stjórnsýslu sveitarfélaganna og nýta þá styrkleika sem eru til staðar. Ýmislegt í smæðinni geti verið lærdómsríkt fyrir stærra sveitarfélag. Varast ber að ofhlaða nefndir og starfsfólk af verkefnum. Mikilvægt sé að gefa verkefnum eðlilegan tíma og samhliða vera tilbúin að borga kjörnum fulltrúum hæfileg laun fyrir sína vinnu.

Á sviði skipulagsmála sáu þátttakendur tækifæri í nýju og framsæknu aðalskipulagi sem nær yfir mest allt Austurland. Aðalskipulag sem hefði umhverfismál og sjálfbærni að leiðarljósi. Samgöngur á lofti, láði og legi eru mikilvægar í sameinuðu sveitarfélagi. Egilsstaðaflugvöllur, Fjarðarheiðargöng, Axarvegur, Borgarfjarðarvegur og almenningssamgöngur bar mikið á góma í nokkrum umræðuhópum. Fundarfólk sá mikil tækifæri í aukinni samstöðu og slagkrafi til að ná þeim verkefnum á samgönguáætlun og til framkvæmda. Til viðbótar komu fram tillögur um göng undir Vatnsskarð og inn á Borgarfjörð eystri. Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum og vöruflutningahöfn á Seyðisfirði skapa mikil sóknartækifæri í atvinnuþróun á Austurlandi. Gott skipulag um áfangastaði í ferðaþjónustu getu skapað grunn að frekari sókn í þeirri atvinnugrein. Sameinað sveitarfélag er talið geta skapað sterkari umgjörð um umhverfis- og skipulagsmál á Austurlandi og aukið slagkraft í hagsmunagæslu.

Fram komu ábendingar um að varast að flækja málin og taka of langan tíma í að innleiða breytingar. Hætt sé við að þekking tapist ef ekki er vandað til verka við breytingaferlið. Ungt fólk hefur áhyggjur af því að áherslur þeirra geti gleymst í breytingaferlinu. Mjög virkt ungmennaráð er á Fljótsdalshéraði og afar mikilvægt að hafa ungt fólk með í ráðum og tryggja skýran sess fyrir ungmennaráð í nýju stjórnskipulagi.

Hreyfanleiki starfsfólks og samþætting verkefna í félagsþjónustu og fræðslumálum var rauður þráður í vinnunni. Í Sveitarfélaginu Austurlandi komi saman stærri og öflugri hópur starfsmanna með mikla þekkingu og reynslu. Möguleikar eru á þéttara samstarfi við Skólaþjónustu Austurlands. Skiptar skoðanir voru um hvort Fjölskyldusvið Sveitarfélagsins Austurlands ætti að taka yfir verkefni sem nú eru á hendi Skólaþjónustu Austurlands, eða styrkja samstarfið. Fram kom að það geti verið tækifæri fyrir starfsfólk og starfsemina að hafa eina yfirstjórn fyrir skólastarf og brjóta þannig niður múra. Mannauður geti þá flætt milli verkefna í skólastarfi.

Snemmtæk þjónusta og íhlutun er lykillinn að öflugum forvörnum, og lögð var áhersla á að styðja við Austurlandsteymið sem eina af stoðum félags-og fræðsluþjónustu Sveitarfélagsins Austurlands.

Fram komu hugmyndir um að koma félags-, heilbrigðis- og fræðsluþjónustu undir eitt þak og auðvelda þannig þverfaglegt samstarf, þó ekki komi til sameiningar stofnana. Samhliða sé velferðartækni nýtt í félagsþjónustu, ekki síst í þjónustu við eldri borgara. Þátttakendur sjá mikla möguleika í að nýta tækni til fundahalda, samráðs, kennslu og meðferðar. Að mati þátttakenda felast mikil tækifæri í því að sveitarfélagið beiti sér fyrir auknu framboði af framhaldsskóla- og háskólanámi, og auknum rannsóknum.

Bent var á að miklar fjarlægðir innan sveitarfélagsins geti bæði verið styrkur og veikleiki. Styrkur í þeim skilningi að nauðsynlegt er að bjóða upp á grunnþjónustu á hverjum stað. Veikleiki í þeim skilningi að erfitt getur verið að sækja þjónustu milli byggðakjarna. Þar að auki gætu myndast múrar milli samfélaga og jafnvel starfsmanna innan sveitarfélagsins. Mikilvægt sé að huga að því strax í upphafi að brjóta niður múra, og koma í veg fyrir að nýir verði reistir.

Mikil áhersla var lögð á að varðveita sérstöðu hvers samfélags hvort sem litið er til umhverfis, menningar-  eða og skólastarfs. Sveitarfélagið ætti að sjá styrk í sérkennum hvers staðar og hlúa að þeim, frekar en að steypa öllum sama mótið.

Mikil gróska er í menningarmálum í öllum byggðakjörnum og byggir hún á sérstöðu hvers staðar sem mikilvægt er að varðveita. Frumkrafturinn býr í heimamönnum og heimastjórnir geta stutt við þá sprota. Lögð er áhersla á að litið verði á menningarmál sem atvinnumál, ekki bara sem kostnaðarmál. Tækifæri liggja í því að styðja við núverandi menningarstofnanir og félagasamtök, bæði með fjármagni og stuðningi menningarfulltrúa. Viðburðadagskrá fyrir sveitarfélagið er verkefni sem ætti að ganga í sem allra fyrst, samhliða því að efla rannsóknir í listum og menningu.

Á sviði íþrótta-og tómstundamála var lagt til að horft yrði til gildandi stefnumörkunar á hverjum stað og tekið það besta til að móta skýra stefnu fyrir sameinað sveitarfélag, t.d. æskulýðsstefnu Fljótsdalshéraðs, Cittaslow og samfelldan skóladag á Djúpavogi. Að mati Héraðsbúa liggja tækifæri í því að samnýta þjálfara milli byggðakjarna og félaga, auk þess sem það skapast fjölbreyttari tækifæri fyrir börn að iðka íþróttir og tómstundir. Helstu áskoranirnar eru annars vegar að ná til barna af erlendum uppruna og hvetja þau til þátttöku í íþrótta-og tómstundastarfi, og hins vegar að skipuleggja hagkvæman frístundaakstur. Þar geta frístundastyrkir skipt miklu máli og mögulega væri hægt að bjóða upp á mismikinn styrk eftir búsetu, og koma þannig til móts við aksturskostnað. Mikil tækifæri liggja í því að samnýta íþróttaaðstöðu í sameinuðu sveitarfélagi og í frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Translate »
WordPress Video Lightbox