
Rúmlega 3.500 kjósendur eru á kjörskrá fyrir kosningar um sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarhrepps.
Þjóðskrá Íslands hefur gefið út kjörskrárstofn fyrir sameiningarkosningarnar og munu sveitarfélögin á næstu dögum afgreiða kjörskrár í samræmi við lög um kosningar til sveitarstjórna. Tíu dögum fyrir kosningar munu íbúar geta skoðað kjörskrárnar á skrifstofum sveitarfélaganna og gert athugasemdir ef einhverjar eru.
Einstaklingar geta kannað hvort þeir eru á kjörskrá og í hvaða kjördeild, með því að fletta upp í kjörskránni hjá Þjóðskrá. Það er gert með því að fara inn á vefsíðu Þjóðskrár hér.
Karlar | Konur | Alls | |
Borgarfjarðarhreppur | 56 | 38 | 94 |
Djúpavogshreppur | 166 | 149 | 315 |
Seyðisfjarðarkaupstaður | 264 | 245 | 509 |
Fljótsdalshérað | 1.315 | 1.280 | 2.595 |
Alls | 1.801 | 1.712 | 3.513 |
Flestir kjósendur eru á kjörskrá á Fljótsdalshéraði, en fæstir á Borgarfirði. Kosningaréttur er sá sami og í sveitarstjórnarkosningum. Hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili í sveitarfélaginu getur kosið, sem og norrænir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt.