Íbúar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar hafa samþykkt tillögu um að sveitarfélögin fjögur verði sameinuð í eitt.

Atkvæði féllu sem hér segir:

  Borgarfjarðarhreppur Djúpavogshreppur Fljótsdalshérað Seyðisfjarðarkaupstaður
44 156 1291 312
Nei 17 87 84 45
Auð eða ógild atkvæði 7 2 15 3
Alls 68 245 1390 360
Á kjörskrá 95 314 2593 509
Kjörsókn 71,6% 78,0% 53,6% 70,7%
         
64,7% 63,7% 92,9% 86,7%
Nei 25,0% 35,5% 6,0% 12,5%
Auð/ógild 10,3% 0,8% 1,1% 0,8%
Alls 100% 100% 100% 100%

Við sameiningu sveitarfélaganna verður til nýtt sveitarfélag með um fimm þúsund íbúa. Sveitarfélagið verður landfræðilega langstærsta sveitarfélag landsins sem nær yfir um 11 þúsund ferkílómetra.

Áætlað er að nýtt sveitarfélag taki formlega til starfa á fyrri hluta næsta árs. Fram að þeim tíma starfa sveitarfélögin fjögur og sinna þeim verkefnum og þeirri þjónustu sem sveitarfélögin bera ábyrgð á.

Sveitarstjórnirnar fjórar munu, í samræmi við sveitarstjórnarlög nr. 138/2011, skipa fulltrúa í sérstaka stjórn til undirbúnings nýs sveitarfélags. Sú stjórn skal semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar sem gilda mun fyrir hið nýja sveitarfélag þar til því hefur verið sett sérstök samþykkt. Hún skal einnig taka ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, taka saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu.

Undirbúningsstjórnin gerir tillögu til sveitarstjórnarráðuneytisins um með hvaða hætti sameining öðlast gildi, svo sem hvenær verður kosið til nýrrar sveitarstjórnar og gildistöku sameiningarinnar. Þær ákvarðanir verða kynntar við fyrsta tækifæri.

Nafn nýs sveitarfélags liggur ekki fyrir. Ný sveitarstjórn mun velja nafnið en líklegt er að haldin verði íbúakosning þar sem valið verður á milli tillagna frá íbúum.

Translate »
WordPress Video Lightbox