Um sameiningu sveitarfélaga

Mælt er fyrir um verklag við sameiningu sveitarfélaga í 12. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Þegar tvær eða fleiri sveitarstjórnir hafa ákveðið að kanna möguleika á sameiningu viðkomandi sveitarfélaga kjósa þær samstarfsnefnd til þess að annast athugun málsins og undirbúning kosninga. Hver sveitarstjórn kýs að lágmarki tvo fulltrúa í nefndina, en heimilt er að ákveða að hvert sveitarfélag eigi fleiri fulltrúa. Nefndin kýs formann úr sínum hópi.

Samstarfsnefndin skilar áliti sínu til hlutaðeigandi sveitarstjórna, sem skulu fjalla um það á tveimur fundum með a.m.k. einnar viku millibili. 

Að því loknu skal fara fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélaganna um sameininguna. Viðkomandi sveitarstjórnir ákveða sameiginlega hvenær atkvæðagreiðsla fer fram og skal kosið sama dag í öllum viðkomandi sveitarfélögum.

Samstarfsnefndin eða viðkomandi sveitarstjórnir skulu kynna íbúum sveitarfélaganna þá tillögu sem greiða skal atkvæði um og helstu forsendur hennar með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara, svo sem með kynningarfundum og/eða dreifibréfum. Tillagan skal auk þess auglýst opinberlega í Lögbirtingablaði og í fjölmiðlum.

Kosningarétt í kosningum um sameiningu hafa þeir sem hafa kosningarétt í kosningum til sveitarstjórna, þ.e.:

a) íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili í einu þeirra sveitarfélaga sem um ræðir og hafa náð 18 ára aldri á kjördag geta kosið um sameiningu

b) danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag hafa kosningarétt

c) aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í fimm ár samfellt fyrir kjördag hafa einnig kosningarétt.

Miðað er við skráningu lögheimilis þremur vikum fyrir kjördag.

Niðurstaða kosninga um sameiningu er bindandi. Þótt tillaga um sameiningu hljóti ekki samþykki meirihluta kjósenda í öllum sveitarfélögunum sem að tillögunni stóðu, er sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga hlýtur samþykki meirihluta kjósenda heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga  a.m.k. 2/ 3 sveitarfélaganna og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/ 3 hlutar íbúa á svæðinu.

Ef sameiningin er samþykkt skipa sveitarstjórnir sveitarfélaganna sérstaka stjórn sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun nýs sveitarfélags. Hver sveitarstjórn skipar þrjá fulltrúa í stjórnina. Hlutverk hennar er að semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar. Stjórnin tekur einnig ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, tekur saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og skal hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu.

Stjórnin gerir auk þess tillögu til sveitarstjórrnarráðuneytis um það hvort kosið skuli til sveitarstjórnar fyrir hið nýja sveitarfélag eða sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga falin stjórn þess til loka yfirstandandi kjörtímabils. Meginreglan er að kosið er til nýrrar sveitarstjórnar að afloknum kosningum um sameiningu.

Nýkjörin sveitarstjórn tekur við stjórn hins nýja sveitarfélags 15 dögum eftir kjördag. Á sama tíma tekur sameining gildi. Ný sveitarstjórn starfar fram til næstu almennu sveitarstjórnarkosninga og hefur fullt umboð til ákvarðanatöku eftir að hún tekur við.

Sveitarstjórnin ákveður heiti sveitarfélags að fenginni umsögn Örnefnanefndar til að tryggja að það samrýmist íslenskri málfræði og málvenju. Algengast er að leitað sé eftir tillögum að nafni frá íbúum og haldnar kosningar um nafn á nýtt sveitarfélag. Kosningarnar eru þá leiðbeinandi fyrir sveitarstjórn en ekki bindandi. Ákvörðun um nafn er háð samþykki sveitarstjórnarráðuneytis.

Þegar ráðuneytið hefur staðfest sameiningu sveitarfélaga er birt tilkynning um sameininguna sem í B-deild Stjórnartíðinda. Jafnframt skal birta samþykkt um stjórn og fundarsköp hins nýja sveitarfélags sem öðlast gildi um leið og nýtt sveitarfélag tekur til starfa.

Translate »
WordPress Video Lightbox
Share This