Græni kallinn má ekki verða of stór. Mynd: Elín Elísabet

Þann 1. apríl mættu um 30% íbúa Borgarfjarðarhrepps á íbúafund í Fjarðarborg um verkefnið Sveitarfélagið Austurland. Á fundinum voru kynntar hugmyndir um uppbyggingu stjórnskipulags nýs sveitarfélags og þjónustu málaflokka. Almennur stuðningur var við þær hugmyndir sem kynntar voru, en á heimasíðu verkefnisins svausturland.is má finna umfjöllun og minnisblöð um þær hugmyndir.

Borgfirðingar leggja mikla áherslu á að varðveita sérstöðu sína, sem meðal annars felast í smábæjarfíling, liðlegheitum og einfaldleika. Að á Borgarfirði verði áfram hægt að fá skemmtilega hugmynd og koma henni í framkvæmd með einföldum hætti og að samfélagið leggist saman á árarnar. Hvort sem litið er til menningar, skólamála eða atvinnulífs. Fjarðarborg er hornsteinn menningarlífs og samveru á Borgarfirði sem verður að varðveita.

Fram komu ábendingar um að æskilegt gæti verið að fjölga nefndum og auka sérhæfingu á hverju málefnasviði, t.d. á sviði menningarmála. Hugmyndin um Heimastjórnir sem hafi afgreiðsluheimildir í afmörkuðum staðbundnum málum fékk mikinn stuðning og eru vonir bundnar við að með þeim verði hægt að tryggja áhrif íbúa á sín nærþjónustuverkefni.

Hugmyndir um aukna samvinnu og samþættingu verkefna í félags-og fræðslumálum fengu mikinn stuðning. Þátttakendur sáu tækifæri í því að nýta fjarfundabúnað og aðrar rafrænar lausnir í kennslu, ráðgjöf og meðferð. Jafnframt voru greind tækifæri í því að nýta mannauð og þekkingu á svæðinu betur, og auka áherslu á sí-og endurmenntun.

Afar mikilvægt er að bæta samgöngur milli byggðakjarna í sameinuðu sveitarfélagi og bjóða upp á almenningssamgöngur, t.d. þannig að börn og eldri borgarar geti notið menningar-, íþrótta-og tómstundastarfs hvar sem er í sveitarfélaginu.

Borgfirðingar kalla eftir skýrari sýn í atvinnumálum og byggðaþróun og minna á að passa þarf upp á verkefni í vinnslu, eins og Brothættar byggðir. Þátttakendur sáu mikil tækifæri í því að sameina krafta í hagsmunabaráttu fyrir bættum samgöngum, öflugri stuðningi við byggðaþróun og annarri hagsmunagæslu fyrir svæðið. Á sama tíma og Borgfirðingar kölluðu eftir skýrari sýn á atvinnuþróun og nýtingu tæknilegra lausna, er mikill vilji til að halda í sérstöðu Borgarfjarðar og gömul gildi.

Í úrgangsmálum kom fram áhugaverð hugmynd um að fóðra þorps- eða samfélagssvín á lífrænum úrgangi.

Elín Elísabet

Þátttakendur voru sammála um að það sem helst beri að varast í sameiningarferlinu er að vald og þjónusta verði of miðlæg, þannig að minni byggðakjarnarnir verði afskiptir. ,,Græni kallinn“ má ekki vera of frekur til plássins!

Að mati Borgfirðinga skapar sameining sveitarfélaganna fjögurra tækifæri til að auka slagkraft svæðisins í hagsmunagæslu og baráttu. Svo sem í samgöngumálum, byggðaþróun og menntamálum. Fundarmenn voru líka sammála um að mikil tækifæri liggi í því að byggja upp sveitarfélag með öflugan og vel menntaðan starfsmannahóp, öfluga og virka rafræna þjónustu og stjórnsýslu og sterkan fjárhagslegan grunn.

Teikningar frá fundinum gerði listakonan Elín Elísabet Einarsdóttir http://www.elinelisabet.com/

Translate »
WordPress Video Lightbox