Þann 3. apríl mættu tæp 15% íbúa Djúpavogshrepps á íbúafund á Hótel framtíð um verkefnið Sveitarfélagið Austurland. Á fundinum voru kynntar hugmyndir um uppbyggingu stjórnskipulags nýs sveitarfélags og þjónustu málaflokka. Eins og á Borgarfirði og Seyðisfirði var almennur stuðningur var við þær hugmyndir sem kynntar voru, en á heimasíðu verkefnisins svausturland.is má finna umfjöllun og minnisblöð um þær hugmyndir.

Hæglæti er í hávegum haft á Djúpavogi, enda er Cittaslow hugmyndafræðin hluti af grunnstefnu sveitarfélagsins. Íbúar Djúpavogshrepps leggja áherslu á að halda í þá sérstöðu staðarins að byggja á hæglætisstefnunni, nánd og samheldni sem einkennir samfélagið. Sú stefna kom m.a. fram í því að varað er við að offjárfesta í yfirbyggingu, hvort sem það er í mannvirkjum eða mannahaldi.

Eins og á öðrum íbúafundum var mikill stuðningur við hugmyndina um Heimastjórnir. Bent var á að varast beri að fækka fagnefndum um of og að stjórnsýslan verði of miðlæg. Þá var lýst áhyggjum af því að flækjustig í stjórnsýslu gæti aukist ef milliliðir eru margir. Mikilvægt sé að tryggja gott aðgengi að þjónustu og stjórnsýslu á hverjum stað og rafrænt. Á Djúpavogi er góð aðstaða fyrir starfsmenn til að sinna verkefnum sem eru ekki bundin ákveðinni staðsetningu. Í því felast mikil tækifæri fyrir sveitarfélag, starfsmenn og samfélagið allt.

Íbúar Djúpavogshrepps sjá tækifæri í að sameina stjórnsýslu í eina öfluga heild og auka þannig slagkraft og möguleika til sérhæfingar í verkefnum. Það beri að varast að hafa stjórnsýsluna of miðlæga og skilgreina vel hlutverk og verkaskipti milli heimastjórna og sveitarstjórnarinnar. Sérstaklega var dregið fram að skipulagsvaldið megi ekki vera of miðstýrt, flókið og ítarlegt. Stuðningur var við að Heimastjórnir fari með deiliskipulagsvald og haldið verði áfram með vinnslu miðbæjardeiliskipulags. Talsverð umræða var um umhverfis-og skipulagsmál þar sem áhersla var lögð á Cittaslow hugmyndafræðina, varðveislu eldri húsa, umhverfisvernd og skógrækt. Fundarmenn sjá tækifæri í uppbyggingu göngu-og hjólreiðastíga sem geta þjónað jafnt íbúum og ferðafólki.

Íþrótta-og tómstundamál voru fundargestum ofarlega í huga. Mikilvægt er að varðveita og efla heildstæðan skóla og frístundadag á Djúpavogi. Mikil áhersla var lögð á að sveitarfélagið taki að sér að stuðla að virku samtali milli félagasamtaka og íþróttafélaga til að samræma dagskrá, æfingar og verkefni. Því sé mikilvægt að starfandi verði íþrótta-og tómstundafulltrúi. Sá starfsmaður byggi jafnframt upp virkt íþrótta-og tómstundastarf fyrir eldri borgara. Íþróttamiðstöðin í Djúpavogi er ákveðinn miðdepill í samfélaginu og er íbúum umhugað um að halda rúmum opnunartíma. Að lokum var lagt til að íbúum Sveitarfélagsins Austurland verði gert skylt að halda með enska úrvalsdeildarliðinu Arsenal!

Miklu máli skiptir að starfandi verði menningarfulltrúi fyrir allt sveitarfélagið og varast ber að vald og umsýsla verði of miðlæg. Á Djúpavogi eru margir vaxtarsprotar í menningartengdri ferðaþjónustu sem þarf að styðja við og rækta. Mikil áhersla hefur verið lögð á að þróa vörur, mat og þjónustu sem byggir á þekkingu og hráefni frá svæðinu sem mikilvægt er að varðveita. Menningarhátíðirnar Rúllandi snjóbolti og Hammondhátíðin eru íbúum ofarlega í huga, sem og varðveisla eldri húsa. Íbúar eru líka stoltir af umhverfi sínu og sögu og vilja beina gestum á gönguleiðir og upplýsingar um svæðið, m.a. rafrænt.

Á fundinum var mjög eindreginn stuðningur við að Axarvegur verði byggður upp sem heilsársvegur og fullkláraður á næstu 2 árum. Með veginum styttist hringvegurinn mikið og ferðatími milli Djúpavogs og Egilstaðar styttist um klukkustund. Góð tenging við alþjóðaflugvöll á Egilsstöðum muni skapa mikil tækifæri í atvinnuþróun.

Gönguleiðsögn

Í fræðslumálum sá fundarfólk tækifæri í sameiginlegri skólastefnu, auknu samstarfi, fjölbreyttri sérfræðiþjónustu og meiri sveigjanleika til að veita börnum af erlendum uppruna fræðslu og þjónustu. Góðar nettengingar eru forsenda þess að vel takist til við fjarkennslu og -meðferðir. Mikilvægt er að skólarnir starfi áfram á hverjum stað og haldi sinni sérstöðu.

Sjávarútvegur og fiskeldi eru kjarnaatvinnugreinar á Djúpavogi, ásamt ferðaþjónustu. Hlutverk hafnarinnar er því mjög mikilvægt og lögð mikil áhersla á að uppbygginu hennar verði haldið áfram til að styðja við vöxt fiskeldisins. Á hverju ári koma fleiri og fleiri farþegaskip til Djúpavogs sem skipta verulegu máli fyrir ferðaþjónustuna. Í ljósi þess var lögð áhersla á að skilgreina vel hlutverk mismunandi hafna í sveitarfélaginu.

Á Djúpavogi var talsvert rætt um verkefni sem eru ábyrgð annarra en sveitarfélagsins, svo sem heilbrigðismál, háskólanám, löggæslu, verslun og þjónustu. Mikil áhersla er lögð á að varðveita löggæslu og heilsugæslu á staðnum og styrkja hana með fjarlæknismöguleikum. Lagt var til að fjórðungssjúkrahús Austurlands verði byggt á Egilsstöðum, enda miðpunktur samgangna á Austurlandi. Fundarmenn voru sammála um að mikilvægt sé að verja og styrkja verslun og þjónustu í bænum, svo sem bankaþjónustu.

Teikningar frá fundinum gerði listakonan Elín Elísabet Einarsdóttir http://www.elinelisabet.com/

Translate »
WordPress Video Lightbox