Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar í gegnum samráðsgátt stjórnvalda, en hlekkur er á hana hér að neðan.

Í þingsályktunartillögunni er áhersla lögð á sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislega starfsemi og skilgreindar eru 11 aðgerðir. Verkefnið Sveitarfélagið Austurland er í samræmi við þá stefnumörkun og aðgerðir sem þingsályktunartillagan byggir á. 

Hið sameinaða sveitarfélag verður með um 5.000 íbúa ef sameining verður samþykkt og fyrirliggjandi er að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga mun styðja vel við sameininguna, m.a. með framlögum til skuldajöfnunar og þróunar í stjórnsýslu og þjónustu. Áætlað er að framlög Jöfnunarsjóðs til verkefnisins verði um 1.600 milljónir króna. 

Áætlað að skuldaviðmið hins sameinaða sveitarfélags verði undir 100% frá og með árinu 2021 og fari lækkandi. 

Í þeirri framtíðarsýn sem samstarfsnefnd hefur lagt fram fyrir Sveitarfélagið Austurland er lagt til að sveitarfélagið verði í fararbroddi í rafrænni stjórnsýslu og þjónustu, áhersla á að opinber störf án staðsetningar verði til í sveitarfélaginu og að starfsaðstæður kjörinna fulltrúa verði bættar. 

 Hægt er að nálgast þingsályktunartillöguna í Samráðsgátt stjórnvalda og senda inn umsögn, með því að smella hér.

 Aðgerðirnar ellefu eru eftirfarandi: 

 1. Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga. Lagt er til að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 en 1.000 frá kosningum árið 2026.
 2. Fjárhagslegur stuðningur við sameiningar. Reglum Jöfnunarsjóðs verði breytt til að tryggja aukinn stuðning við sameiningar sveitarfélaga og heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði fyrir árið 2022.
 3. Tekjustofnar sveitarfélaga. Greinargerð verði unnin um núverandi tekjustofnakerfi til að meta hvaða tekjustofnar gætu færst á milli ríkis og sveitarfélaga og nýir tekjustofnar sveitarfélaga kannaðir. Gistináttagjald verði flutt til sveitarstjórna á kjörtímabilinu í tengslum við viðræður ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun tekjustofna.
 4. Fjármál og skuldaviðmið. Skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga fyrir A-hluta sveitarsjóða verði lækkað í 100% með tíu ára aðlögunartíma.
 5. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga. Aðgerðaáætlun mótuð um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að meta hvort og hvaða verkefni rétt væri að flytja frá ríki til sveitarfélaga eða öfugt.
 6. Landshlutasamtök sveitarfélaga og samvinna sveitarfélaga. Staða og hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga verði skýrð og unnið verði í samræmi við tillögur starfandi ráðherraskipaðrar nefndar um starfsemi landshlutasamtaka.
 7. Samskipti ríkis og sveitarfélaga. Unnið verði að því að greina kosti þess að koma á fót nefnd eða gerðardómi að norrænni fyrirmynd sem taki fyrir ágreiningsmál sem upp kunna að koma í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, og ekki eru falin öðrum stjórnvöldum til úrlausnar.
 8. Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa verði bættar og gætt að kynjajafnrétti sveitarstjórnarfólks. Lagt er til að greining verði unnin á starfsaðstæðum hér á landi í samanburði við aðstæður í nágrannalöndum á Norðurlöndum.
 9. Lýðræðislegur vettvangur.
  Lagt er til að komið verði á fót lýðræðislegum vettvangi sveitarfélaganna til að tryggja íbúum sveitarfélaga og þeim sem njóta þjónustu þeirra möguleika á að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar.
 10. Stafræn stjórnsýsla sveitarfélaga.
  Ráðist verði í átak til að efla stafræna stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélaga og komið á miðlægu kerfi sveitarfélaga til að efla samstarf þeirra á svipi upplýsingatækni.
 11. Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.
  Átak verði gert í fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og atvinnugrundvöllur í nýsameinuðum sveitarfélögum styrktur.

Translate »
WordPress Video Lightbox