Fyrir tæplega hálfri öld voru 16 sveitarfélög á því svæði sem nú kemur til álita að sameina í eitt sveitarfélag, undir vinnuheitinu Sveitarfélagið Austurland.  Á síðasta ári samþykktu sveitar- og bæjarstjórnir Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar að hefja formlegar sameiningarviðræður sveitarfélaganna. Var þetta gert í kjölfar könnunar meðal íbúanna um viðhorft þeirra til sameiningar sveitarfélaganna.
Fyrir 46 árum voru sveitarfélögin á þessu sama svæði alls sextán. Þau eru nú fjögur, en gæti verið orðið eitt á næsta ári með um 4.800 íbúa. Fljótsdalshreppur hefur haldið sig frá öllum sameiningum í gegnum tíðina en þar voru 76 íbúar með lögheimili um síðustu áramót.

Hér má sjá sögu sameiningar sveitarfélaganna á þessu svæði frá árinu 1973.

  • Egilsstaðabær, Eiðahreppur, Hjaltastaðarhreppur, Skriðdalshreppur og Vallahreppur sameinuðust í Austur-Hérað 1998.
  • Árið 1997 sameinuðust  Jökuldalshreppur, Hlíðarhreppur og Tunguhreppur í Norður-Hérað.
  • Austur-Hérað, Norður-Hérað og Fellhreppur sameinuðust árið 2004 í Fljótsdalshérað. 
  • Djúpavogshreppur varð til við sameiningu Búlandshrepps, Geithellnahrepps og Beruneshrepps 1992.
  • Seyðisfjarðarkaupstaður sameinaðist Seyðisfjarðarhreppi 1990.
  • Borgarfjörður sameinaðist Loðmundarfjarðarhreppi 1973. 

Nú er hafin formleg vinna sem miðar að mótun nýs sveitarfélags sem gengur undir vinnuheitinu Sveitarfélagið Austurland. Í mars er gert ráð fyrir að starfshópar skipaðir fulltrúum sveitarfélaganna fjögurra skili greiningu og hugmyndum inn í framtíðarsýn sameinaðs sveitarfélags.

Áætlað er að íbúafundir verði haldnir í öllum sveitarfélögunum fjórum í apríl, þar sem kallað verður eftir sjónarmiðum íbúa og umræðum um framtíðina, en stefnt er að því að kosið verði um sameiningu sveitarfélaganna í lok október á þessu ári.

Minnisblað sem kynnt var fyrir þingmönnum og ráðherra

Translate »
WordPress Video Lightbox